Í kosningunum í vor átti ég erfitt með að gera upp við mig hvað ég ætlaði að kjósa. Ég fór niður á skrifstofu Framsóknarflokksins og fékk að þar símtal við Ingibjörgu Isaksen. Þar spurði ég hana hvað hún ætlaði að gera fyrir heilbrigðiskerfið og framlínufólk ef hún kæmist á þing. Ég sagði henni að undanfarin þrjú ár væri ég búin að sérhæfa mig í að vinna með samúðarþreytu, annars stigs áföll, kulnun og samúðarsátt (Íslenskt orð sem Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur og samstarfskona mín þýddi fyrir enska orðið Compassion Satisfaction).
Ingibjörg hafði svo samband við mig í desember og að hennar ósk sendi ég henni greinargerð um samúðarþreytu og mögulegar úrbætur. Heldur betur spennandi því nú er greinagerðin orðin hluti af þingsályktunartillögu.
Þekking hjúkrunarfræðinga (og annarra sem vinna við það að hjálpa öðrum) á annars stigs áföllum (e. Secondary Trauma) og mögulegum afleiðingum þeirra er mikilvæg forsenda þess að þeir geti brugðist við þeim. Stjórnendur verða að vera meðvitaðir um afleiðingar annars stigs áfalla og vera með skýra verkferla til að hlúa vel að starfsfólki sínu til að stuðla að öryggi og vellíðan í starfi. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis (2017) um mönnun, menntun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga kemur fram að mikilvægt sé að greina orsakir atgervisflótta. Þar kemur einnig fram að skort á hjúkrunarfræðingum sé ekki hægt að rekja til ónógrar nýliðunar og að rökin fyrir því séu gögn frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) sem sýndu að fjöldi nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga hér á landi væri með því hæsta sem gerist innan OECD. (https://www.rikisend.is/.../2017-Hjukrunarfraedingar...)
Það er mikilvægt að mennta fleira fólk til starfa í svo mikilvægri starfsgrein en það þarf líka að hlúa að mannauðnum sem er þegar til staðar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að afleiðingar annars stigs áfalla meðal hjúkrunarfræðinga eru meðal annars atgervisflótti. Meginástæða þess að undirrituð hefur kosið að kynna sér samúðarþreytu og annars stigs áföll er eigin reynsla. Ég var svo lánsöm að góðir vinnufélagar sáu að ég var ekki eins og átti að mér að vera og ég fór því að leita mér handleiðslu. Það vildi svo til að það var Sigrún Heimisdóttir, sálfræðingur sem er nú vinnufélagi minn á Heilsu og sálfræðiþjónustunni. Sigrún benti mér á að ég væri að þróa með mér samúðarþreytu og ég kom af fjöllum. Hafði aldrei heyrt þetta hugtak. Síðan þá hef ég lesið mikið magn af erlendum rannsóknum, skrifað nokkrar ritgerðir um samúðarþreytu en ég er í meistaranámi í heilbrigðisvísindum, með áherslu á geðheilbrigði.
Það er lítið rætt um áföll í starfi hjúkrunarfræðinga og ef það er gert þá er oft talað um bein áföll í kjölfar stakra atburða í vinnu en minna rætt um annars stigs áföll og afleiðingar þeirra. Þegar stærri atburðir gerast þá eru stundum haldnir viðrunarfundir. Ég minnist þess reyndar ekki hafa nokkurn tíman verið boðið að fara á slíkan fund þrátt fyrir að hafa oft lent í mjög krefjandi aðstæðum sem sátu lengi í mér. Það er bara eitthvað sem maður á að venjast og hrista af sér. Það getur hins vegar verið erfitt en með handleiðslu þá má yfirstíga margt og efla fagsjálfið. Vissulega geta áföll í vinnu verið blanda af beinum og annars stigs áföllum.
En það er mikilvægt að kanna reynslu íslenskra hjúkrunarfræðinga og annarra fagstétta sem vinna við það að hjálpa öðrum, af annars stigs áföllum, afleiðingum þeirra, bjargráðum og síðast en ekki síst forvörnum. Mögulega væri hægt að koma í veg fyrir atgervisflótta og kulnun með réttum forvörnum.
Ég hef fylgst náið með framlínu fólkinu okkar í Covid- álaginu, verið með ,,samúðarþreytu- gleraugun” uppi og haft áhyggjur. Við hjá Heilsu og sálfræðiþjónustunni viljum vera til staðar. Það ætlum við m.a. að gera með því að bjóða upp á tvo lokaða fundi, annar ætlaður heilbrigðisstarfsfólki, lögreglu og slökkviliði, hinn verður ætlaður starfsfólki í menntakerfinu og þar viljum við leggja áherslu á leikskólakennara, grunn- og framhaldsskólakennara. Þar munum við fara yfir það hvað samúðarþreyta er, áföll í starfi, kulnun og vinna með bjargráð.
Comments