Október er tileinkaður vitundarvakningu um ADHD (Attention deficit/hyperactivity disorder). ADHD er skilgreint sem taugaþroskaröskun og læknisfræðilegt heiti á íslensku er: „Truflun á virkni og athygli”. Síðustu vikur hefur átt sér stað mikilvæg umræða í fjölmiðlum tengd offitusjúkdómnum, greiningu hans og meðferð. Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir hefur staðið í framlínu þeirrar vitundarvakningar og bent á að mikilvægt sé að breyta viðhorfum til þeirra sem takast á við ofþyngd. Sú umræða og þessi stóra spurning, hvenær einkenni eða ástand er orðið að röskun eða sjúkdómi, sem þarf að greina og meðhöndla, gæti alveg eins átt við um ADHD.
Í daglegu tali skellum við fram allskonar fullyrðingum og staðalímyndum t.d. „ég er svo ofvirk í dag“ eða „geðveik“ eða „feit“. Sjaldan heyrist þó „ég er svo kransæðastífluð í dag“, „vöðvabólguð“ eða „mjó“ svo það eru einungis sum einkenni, raskanir eða sjúkdómar sem við tengjum við dagsformið, á meðan annað kemst ekki á blað í því samhengi. Svona tal þarf ekki endilega að vera neikvætt, en skapar þó mögulega hættu á því að þeir sem raunverulega finna fyrir erfiðleikum vegna viðvarandi einkenna fái ekki skilning, mat á vanda sínum eða meðferð við hæfi.
Hvenær er þá mikil virkni eða athyglisvandi orðið að röskuninni ADHD? Flest þekkjum við nefnilega eitthvað af þessum einkennum hjá okkur. Við erum með athyglisbrest annað slagið, erum virkari þennan daginn en góðu hófi gegnir, en rólegri þann næsta. Gleymum og klikkum á að skipuleggja okkur eða höldum ekki skipulagið út. Samfélagið ýtir svo kannski bara undir allt saman með hraða nútímans og kröfum.
Greining á þeirri hömlun sem einkenni ADHD geta haft á daglegt líf er flókin og yfirgripsmikil, bæði hjá börnum og fullorðnum. Í orðunum „truflun á virkni og athygli“ felst að það er vandi til staðar, eitthvað sem truflar. Í greiningarferli fullorðinna, er fyrst skimað fyrir því hvort taugaþroskaröskunin sé mögulega til staðar og hvort einkenni séu hamlandi.
Alveg eins og þegar skimað er fyrir annarskonar heilsuvanda, er verið að útiloka að eitthvað annað geti valdið einkennum. Þetta heitir mismunagreining og snýst um að kanna allar mögulegar tilgátur eða skýringar aðrar. Þar byrja flækjurnar því margt í okkar daglega lífi hefur áhrif á athyglisgetu og virkni. Sálfræðingur sem greinir röskunina er því með margar tilgátur í kollinum á meðan hann talar við skjólstæðing sinn.
Dæmi um mögulega áhrifaþætti er tilfinningalegt ástand, áfallareynsla, langvarandi streita eða álag, nýlegt álag eða erfiðleikar tengt núverandi aðstæðum, svefnóregla eða hverskonar innri eða ytri streituvaldar. Einnig líkamlegir þættir s.s. efnaskiptabúskapur, næring, hreyfing og lífsstíll. Enn fremur er metið hvort einkenni skýrist af öðrum taugaröskunareinkennum s.s. sértækum námsörðugleikum, þroskafrávikum, byrjandi heilabilun nú eða geti verið tilkomin vegna uppeldis eða félagsmótunar. Til að flækja enn frekar greiningarmyndina eru fylgiraskanir tiltölulega algengar.
Ef skimun bendir enn til hamlandi einkenna vegna ADHD og þau ólíkleg til að skýrast af öðru, er metið nánar hvaða einkenni þetta eru og hversu alvarleg. Greiningin felur einnig í sér mat á mögulegum tilfinningavanda og fylgiröskunum, styrkleikum í aðstæðum viðkomandi og veikleikum. Niðurstöður og ráðleggingar um meðferð eru settar fram í skýrslu þannig að öll þessi kortlagning nýtist einstaklingnum sem best.
Meðferð með lyfjum er í mörgum tilvikum gagnleg og fer fram mat á þeim meðferðarmöguleikum hjá lækni í framhaldi af greiningu sálfræðings. Mikilvægt er að fólk með hamlandi ADHD hafi tök á stuðningi eða meðferð vegna vandans t.d. hjá sálfræðingi, iðjuþjálfa, hjúkrunarfræðingi eða öðrum fagaðilum sem hafa sérþekkingu á taugakerfi, hegðun, tilfinningavanda og fylgiröskunum.
Vitundarvakning skiptir máli og er hvatning til allra sem grunar að þeir geti verið með einkenni sem hamla í daglegu lífi, til að sækja sér upplýsingar, fá mat á vandanum, stuðning eða meðferð. Hvort sem vandinn heitir taugaröskunin ADHD, ofþyngd eða annað.
Höfundur greinarinnar Sigrún V. Heimisdóttir er sérfræðingur í klínískri sálfræði og framkvæmdastjóri Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar, miðstöðvar heilsueflingar.
Yorumlar