top of page

Er ég kvíðin eða drakk ég of mikið kaffi í dag?


Það eru eflaust einhverjir sem þekkja það að hafa drukkið of mikið kaffi, fundið fyrir hröðum hjartslætti og eirðarleysi í kjölfarið og hugsað “ég hlýt að vera kvíðið/n/nn”.  Koffínið í kaffi getur haft þau áhrif á líkamann að við finnum fyrir einkennum sem eru mjög svipuð algengum kvíðaeinkennum. Það er því tiltölulega auðvelt að mistúlka einkenni eins og eirðarleysi og aukinn hjartslátt sem kvíða en sjá ekki endilega tengslin við kaffidrykkjuna. Á hinn bóginn áttum við okkur í mörgum tilvikum ekki á að þau líkamlegu einkenni sem við erum að glíma við geta verið vegna andlegs álags en setjum hins vegar fókusinn á að það hljóti að vera einhver líkamlegur sjúkdómur til staðar. Mistúlkun á líkamlegum einkennum og líðan er nokkuð algeng en það er ýmislegt sem getur villt um fyrir okkur við að meta einkennin eins og ég mun fjalla betur um hér fyrir neðan.


Mörg börn sem upplifa kvíða eiga erfitt með að tjá sig um líðan sína og átta sig kannski ekki á

að þau séu kvíðin. Algengt er að þau kvarti frekar undan ýmsum líkamlegum einkennum eins og

magaverk, hausverk eða þreytu sem er auðveldara fyrir þau að bera kennsl á. Dæmi eru um að börn hafi farið í ótal rannsóknir og hitt lækni eftir lækni til að athuga hugsanlegt meltingarvandamál. Að lokum kemur í ljós að barnið er með kvíðaröskun. Það er ósköp skiljanlegt að börn hafi ekki þroska í að skilja líðan og tilfinningar sínar þar sem þau eru jú börn og eiga eftir að læra inn á líðan sína. Hins vegar á þetta ekki einungis við um börn. Fullorðnir geta einnig átt erfitt með að átta sig á eigin líðan, tilfinningum og streituvöldum í umhverfi sínu. Það sem getur ruglað okkur í ríminu er að ýmis einkenni geðræns vanda og langvarandi streitu eru líkamleg. Langvarandi streita getur til dæmis valdið þyngslum fyrir brjósti, hjartsláttaróreglu, svima, bakflæði, meltingartruflunum, hægðatruflunum og hugrænum einkennum eins og gleymsku og einbeitingarerfiðleikum. Streita getur jafnvel valdið ýmsum einkennum sem okkur hefði ekki dottið í hug eins og sjóntruflunum, verkjum, viðkvæmni fyrir hljóði og svo mætti lengi telja. Mörg þessara einkenna upplifir fólk einnig sem er að glíma við svefnleysi eða geðraskanir eins og og þunglyndi og kvíða.


Hjá meirihluta af þeim einstaklingum sem leita sér aðstoðar á hjartabráðamóttöku vegna

hjartaverkja er ekki hægt að finna nein merki um hjartasjúkdóm eða annað sem getur skýrt verkinn

þrátt fyrir skoðun og rannsóknir. Ótilgreindir brjóstverkir sem þessir eiga við um meira en helming

þeirra mála sem koma inn á hjartabráðamóttökur. Ýmsir vefrænir (líkamlegir) og lífstílstengdir

orsakaþættir eru skýringin á hluta þessara koma en stóran hluta er þó hægt að skýra með sálrænum

orsaka- eða áhrifaþáttum eins og streitu, þunglyndi og kvíða. Það sem flækir fyrir er að sum einkenni hjartaáfalls eru svipuð þeim einkennum sem koma fram í kvíðakasti. Einkennin geta auk þess verið mjög sterk og því eru margir sem telja að eitthvað sé að hjartanu þegar þeir eru í raun að upplifa kvíðakast.


Algengt er að fólk upplifi ýmis hugræn einkenni eins og gleymsku og einbeitingarskort í

daglegu lífi. Fólk man oft ekki hvað það ætlaði að kaupa í búðinni, hvenær það átti bókaðan

tannlæknatíma, hvar það skildi eftir lyklana sína og finnst erfitt að einbeita sér og halda athygli á

fundum í vinnunni. Þegar einstaklingur á sjötugsaldri upplifir þessi einkenni gæti strax farið hringja á

viðvörunarbjöllum hjá viðkomandi þar sem hann gerir sér grein fyrir að að hann er farinn að eldast

og telur að hann hljóti að vera að þróa með sér einhvers konar minnissjúkdóm. Þegar kemur á

daginn hefur hann verið undir miklu álagi til lengri tíma, á orðið erfitt með svefn, er hættur að stunda golf með félögunum, fara í sund og gera alla þá hluti sem veittu honum áður ánægju. Hugræn einkenni eins og einbeitingarskortur og gleymska eru nefnilega einnig algeng einkenni streitu, þunglyndis, kvíða og svefnleysis. Eðlilegt er að í daglegu lífi komi það fyrir að fólk gleymi einu og öðru. Þegar fólk er hins vegar byrjað að hafa áhyggjur af mögulegu minnistapi er tekið eftir minnstu smáatriðum sem það gleymir sem allt staðfestir frekar trú viðkomandi að minnið hljóti að vera að gefa sig. Í aðstæðum sem þessum getur verið erfitt að trúa hversu mikil áhrif andleg vanlíðan og svefnleysi geta haft á minni og hugræna getu. Þar af leiðandi er fundin önnur orsök á vandanum, líkamleg orsök.


Það er ekki svo að öll líkamleg einkenni sé hægt að útskýra með sálrænum þáttum.

Mikilvægt er að vera meðvitaður um heilsu sína, taka eftir líkamlegum einkennum og leita til læknis

þegar við á. Ætlunin hér er einungis sú að vekja fólk til umhugsunar um það hversu gríðarleg áhrif

andleg líðan getur haft á líkamlega heilsu. Sömuleiðis getur sársaukinn vegna líkamlegra einkenna af sálrænum toga verið alveg jafn hamlandi og er ekkert minna gildur en þegar um líkamlegar orsakir er að ræða. Þann sársauka á einnig að taka alvarlega en þarna er líkaminn að biðja um athygli og er að segja okkur að ekki sé allt í lagi. Það er mikilvægt að læra að hlusta á líkamann til að leiðbeina okkur hvað er hafa góð áhrif, hvað er að hafa slæm áhrif á heilsu okkar og hlúa að okkur sjálfum. Að huga að geðrækt er alveg jafn mikilvægt og að huga að líkamlegri heilsu. Það er ýmislegt sem við getum gert sjálf til að rækta geðheilsuna en þegar vandinn er orðinn mikill og við eigum orðið erfitt með að ráða við hann sjálf er mikilvægt og oft nauðsynlegt að leita sér aðstoðar.


Höfundur greinarinnar Auður Ýr Sigurðardóttir er sálfræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni. Hægt er að bóka fjarviðtöl hjá henni í gegnum Noona eða Hafa samband.

Comentários


bottom of page