Heilaleikfimi er heilsubót.
Við þekkjum öll nauðsyn þess að þjálfa líkama okkar. Það hjálpar okkur er við tökumst á við öldrun og sjúkdóma, er forvörn gegn ýmsum kvillum og bætir líðan. Flest erum við kyrrsetufólk við vinnu og að miklu leyti heima hjá okkur, en við búum samt í líkama sem er hannaður til hreyfingar og líkamlegrar áreynslu. Því þurfum við að vera meðvituð um að sjá honum fyrir tækifærum til þjálfunar. Í því skyni eru ótal margir staðir og möguleikar sem við getum nýtt okkur. Við notum sundlaugar, íþróttavelli, göngustíga, líkamsræktarstöðvar, dansstúdíó og golfvelli, – við hjólum, hlaupum, syndum, rífum í járn, förum í allskyns hreyfitíma eða bara gönguferðir, allt fyrir skrokkinn. Stundum eru markmiðin full-háleit og við gerumst dyggir stuðningsaðilar líkamsræktastöðvanna en gleymum kannski að fara þangað þegar frá líður en það er nú önnur saga og lengri.
En hvað þá með líffærið sem er fremur lítið, einungis u.þ.b. 2% líkamsþyngdar okkar en þarf mikla orku og notar um 20% blóðflæðis í líkamanum. Líffæri sem lifir á súrefni og sykri en kjamsar á ketónum úr fitu ef allt annað bregst, líffæri sem er sjálft að 60% gert úr fitu,-líffæri sem sífellt sendir efnaboð og rafmagnsboð um líkamann. Jú líffærið sem ég er að tala um og er undirstaða alls sem við segjum, gerum, hugsum og erum, -er auðvitað heilinn.
Heilinn okkar er líffæri sem að einhverju leyti hefur ekki hefur þróast í gegnum árþúsundin og ýmis frumviðbrögð sem halda okkur á lífi eiga heima í þessum gamla hluta heilans t.a.m í litlu möndlulaga líffæri, möndlungnum. Þar má segja að sírenurnar fari í gang og bláu ljósin kvikni þegar heilinn telur okkur í hættu stödd og þar á streitan aðalbækistöðvar. Hellisbúinn sem við eitt sinn vorum og nútímamaðurinn sem við erum núna, sebrahesturinn á sléttum Afríku og heimilishundurinn, – bregðast öll við með sama streituviðbragðinu ef þessi frumheili telur að ógnir séu að steðja að.
Gallinn er bara sá að heimurinn hefur breyst heilmikið frá því að við vorum hellisbúar og heilinn er er líka farinn að túlka ýmis áreiti nútímalífs sem stöðuga hættu. Streituviðbragðið okkar er á sterum ef svo má segja og heilinn farinn að túlka yfirmanninn í vinnunni, umferðina, unglinginn á heimilinu, þras um heimilisþrifin, fjármálin og allskonar lífsins bögg sem stöðuga lífshættu. Þá getum við svo auðveldlega setið föst í frumviðbrögðunum, spennan verður meiri en við höfum gott af og stöðug yfirkeyrsla á kerfinu.
Á móti kemur að við höfum aðra mun þróaðri hluta heilans, s.s. framheilann og heilabörkinn sem hjálpa okkur stöðugt með því að beita dómgreind, slökun og rökhugsun til að kæla kerfið þannig að við getum haldið í andlega og líkamlega heilsu. Ef gamli hluti heilans er götulögga með blikkljós og sírenur þá er nýji hlutinn leynilögga sem ræður gáturnar, leysir málin og vinnur úr óreiðunni. Þessir tveir hlutar heilans keppast um það hver eigi að ráða ferðinni.
Flest gerum við okkur grein fyrir því að það er ekkert sérstaklega hollt til lengdar að láta stjórnast mikið af hráum og frumstæðum viðbrögðum í nútímaheimi og myndum gjarna vilja styrkja nýrri hluta heilans og hvetja þá til dáða.
En hvernig þjálfum við heilann og er yfirhöfuð hægt að breyta hlutföllum hans og starfsemi? Er til eitthvað „framheilafitness“?
Já reyndar er til fínasta heimaheilaleikfimi sem hægt er að stunda og rannsóknir sýna fram á að styrkja framheilann marktækt til góðra verka. Ekki nóg með það heldur virðist hún tempra streituviðbrögðin og snyrta taugabrautir í möndlungnum.
Þessi leikfimi nefnist núvitund og felst í því að lifa líðandi stund án fordóma og með gæsku og mildi í eigin garð. Núvitund hvílir hinn síhugsandi hluta heilans, kyrrir okkur og róar. Núvitundaræfingar eru oftast alveg ókeypis, án aukaverkana, þurfa ekki spandexfatnað, ekki tæki eða tól og allir ráða vel við þær. Það þarf bara ástundun.
Aðstoð til að byrja framheilafitnessið núvitund má finna á netinu, í bókum, öppum og vefsíðum og við getum ýmist framkvæmt æfingarnar út af fyrir okkur eða með öðrum. Við getum gert æfingar við ýmsar athafnir dagslegs lífs, s.s. við göngur úti í náttúrunni, áður en við förum fram úr rúminu að morgni og meira að segja við venjubundin verk s.s. að bursta tennur eða fara í sturtu.
Sumum hentar að taka frá sérstakan stað og stundir til núvitundaræfinga en aðrir vilja frekar nota sér að taka núvitundina inn í rútínuna sem fyrir er. Svo lengi sem markmiðinum hér að ofan er náð er aðferðin ekki aðalatriði.
Núvitund breytir þér, líkamlega, andlega og vitrænt. Kjósir þú að stunda núvitund ertu að ákveða að auka hamingju, draga úr streitu, auka einbeitingu og auka sköpunargáfu um leið og þú bætir svefn, styrkir ónæmiskerfið og eykur lífslíkur. Hún hefur sterkan vísindalegan grunn og mikið magn rannsókna styðja gagnsemi hennar.
Að auki þetta; Núvitund býður líka upp á ótrúlega möguleika til að blómstra í lífinu. Hún býður upp gagnreynda leið til þess að staldra við, anda, sjá fegurðina og lifa í velvild og gleði. Ekki bara að líða betur heldur lifa betur, ekki bara gera heldur vera.
Inga Dagný Eydal er hjúkrunarfræðingur, ráðgjafi og núvitundarleiðbeinandi hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.
Hægt er að bóka viðtöl hjá henni í gegnum Noona eða Hafa samband.
Comments