top of page

Jólagleði og jólatregi


Líf okkar allra, stórra og smárra manneskja snýst að miklu leyti um tilfinningar. Ef við göngum út frá því að tilfinningar séu viðbrögð við umhverfi okkar og aðstæðum þá liggur það í augum uppi að ekkert okkar er því undanþegið að verða þeirra var, oft á dag alla daga. Við tölum stundum um að sum okkar séu tilfinningaverur og önnur okkar ekki en það er reyndar rökvilla,- við erum öll tilfinningaverur. Líklega er rökvillan sprottin af því að við erum þekkjum tilfinningar okkar misvel, við höfum ekki sömu þjálfun í að þekkja þær, skilja þær, nefna þær og við vinnum með þær á misjafnan hátt. Sum okkar reyna ákaft að forðast þær, sérstaklega ef þær eru sárar og erfiðar og svo reynum við jafnvel að berjast við þær og loka þær niðri til þess að þurfa ekki að upplifa sársaukann sem þeim fylgir. Við höfum jafnvel talið okkur trú um sem samfélag að það sé hollara að láta sem þær séu ekki þarna og beri vott um andlegan styrk. Í mesta lagi að tár rennur niður steinrunnin vanga einhvers heljarmennis í gömlum sögum og ef það var eina merkið um innri vanlíðan þá þótti það ofur töff.


Og við leggjum mikið á okkur til að láta óþægilegu tilfinningar okkar hverfa, felum skrímslin undir rúminu og lítum aldrei þangað undir,- enginn vill þurfa að horfast í augu við það sem veldur þeim sársauka. Og enginn vill missa stjórnina á þessum skrímslum, við erum jú vandlega alin upp í því að hafa þau undir lás og slá.


Desember, jólin og hátíðahöldin eru tími góðra tilfinninga. Nema hvað, -gleðin er við völd, tilhlökkun, skrautið, samverustundirnar, gjafirnar og allar góðu minningarnar. Börnin í aðalhlutverki og allir keppast við að þeirra tilfinningar og þeirra minningar verði bjartar. Engin skrímsli undir rúmum um jólaleytið, bara jólabirta, sætindi og gleði. Eða hvað?


Hvað um þá sem tengja jólin við sársauka? Við fjölskyldumeðliminn sem alltaf var fullur á jólunum, foreldrana sem rifust, ástvininn sem er ekki lengur hluti af jólahaldinu. Hvað um foreldrið sem getur ekki veitt barninu sínu það sem auglýsingarnar telja okkur trú um að sé ómissandi á jólunum? Hvað um gamalmennið sem þráir að fá að sitja með jólaljósin í kyrrð á jólanótt og minnast þess sem liðið er en er drifið í jólafjörið,-það á jú að vera gaman og enginn á að vera einn! Góðar tilfinningar, hvað sem það kostar.


En lífið er ekki auðvelt, það er að minnsta kosti jafn erfitt og það er ljúft og kannski bara ennþá meira en það. Það er því óraunhæft að ætlast til þess af okkur sjálfum að tilfinningar okkar á jólum séu eitthvað öðruvísi en á öðrum stundum, þær eru allar jafn mikilvægar og allar jafn réttháar. Mér hefur jafnvel dottið það í hug að jól og áramót geti hreinlega verið góður tími til að dusta rykið og kóngulóarvefina af skrímslunum í kjallaranum og undir rúmunum,- skoða þau, og leyfa þeim að vera með í jólahaldinu. Kannski getum við talað meira saman en aðra daga, talað um tilfinningar og samskipti, talað um það sem skiptir okkur öll máli þegar allt kemur til alls. Við gætum rifjað upp góðar og slæmar minningar, hlegið saman og líka grátið. Setið saman í rökkrinu þessa stystu daga ársins og tekið okkur sjálf í sátt. Hlátur og grátur er hvort tveggja leið líkamans til að veita tilfinningum útrás og eiginlega merkilegt að annað teljist jákvætt en hitt neikvætt. Munum bara að það er hvers og eins að skoða tilfinningarnar sínar, við getum ekki gert það fyrir aðra.


Mínar eigin tilfinningar hafa alltaf verið fremur lausbeislaðar og samt er ég enn að reyna að minna mig á að það er ekkert neikvæðara að gráta yfir gömlum minningum eða fallegri tónlist en að hlæja að einhverju fyndnu. Félagsmótunin er sterk og umhverfið reynir að telja okkur trú um að það sé gott að vera alltaf hress. Reyndar grét ég svo á tónleikum þegar sonur minn var á unglingsárum að hann fann upp hugtakið „menapplause“ fyrir viðbrögð miðaldra kvenna á tónleikum en það er nú önnur saga.


Tilfinningar eru ekki hættulegar, viðbrögðin okkar við þeim geta hinsvegar verið varasöm eins og t.d. þegar við beinum reiði að öðru fólki bara vegna þess að við getum ekki horfst í augu að hún sé okkar eigin og okkar sjálfra að taka á henni ábyrgð.


Undanfarna áratugi hefur verið lögð á það mikil áhersla við fólk að sjálfstraust og sjálfsöryggi sé mikilvægara en flest annað og „þú getur allt sem þú vilt“ slagorðin dynja á okkur. „Árangur“, „jákvæðni“, „árangursdrifinn“, „liðsheild“, þetta eru lykilorð í nútímaheimi. Ekki ætla ég að draga úr því að raunhæft sjálfstraust sé gott en í þessum heimi sjálfsöryggis er ekki mikið pláss fyrir kvíða, depurð, ótta, ringuleið eða sorg. Það verður hinsvegar meira pláss fyrir sjálfmiðun, ofuráherslu á eigin getu og það að öll meðul séu leyfileg til að ná árangri.


Og þá fjölgar oft skrímslunum í huga okkar. Ég óttast oft að við gleymum því að sýna okkur sjálfum mildi og umhyggju. Ég óttast að við munum ekki fyrirgefa okkur mistökin og viðurkenna mennskuna í okkur sjálfum.


Ef ég gæti kennt ungu fólki eitthvað þá myndi ég vilja kenna þeim að gráta þegar lífið er hart og sárt, leyfa sér að vera lítil og leið, en líka að standa upp og reyna aftur og aftur, aðra aðferð, nýja hluti,-og gefast aldrei upp.


Megi birta jólanna lýsa okkur myrkrið.


Höfundur greinarinnar, Inga Dagný Eydal, er hjúkrunarfræðingur, ráðgjafi og núvitundarleiðbeinandi hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.


Hægt er að bóka viðtöl hjá henni í gegnum Noona eða Hafa samband.

Comentários


bottom of page