top of page

Óskipt athygli um jólin


Börn á öllum aldri allt frá fæðingu hafa djúpstæða þörf fyrir athygli, eftirtekt og virðingu. Það er í höndum foreldra að mæta þessum þörfum barnsins. Börn þurfa mismikla nærveru, sum þurfa styttri tíma á dag með foreldrum sínum, en önnur lengri. Börn þrá oft ekkert heitar en að foreldrið taki eftir því, að foreldrið hlusti með fullri athygli og áhuga. Það þarf ekki að vera annað en að tala um hvað það var gaman í heimsókn hjá ömmu eða hversu erfitt það var þegar árekstrar urðu í leik við vini.


Streita hjá foreldrum getur haft þau áhrif að foreldrar eigi erfiðara með að muna eftir því að fylgjast með, að gefa sér tíma til þess að skoða, spyrja og hafa áhuga á því sem barnið er að gera eða ganga í gegnum. Streitan sem fylgir hefðum í kringum jólin getur því haft mikil áhrif á samskipti foreldra og barna. Sum börn týnast í samskiptum, þau vilja ekki valda usla eða vera fyrir. Það að þau láti lítið fyrir sér fara er oft misskilið sem þroskamerki en getur verið þögult kall á hjálp. Önnur börn verða meira krefjandi, fá fleiri skapofsaköst og eiga erfitt með að ná sér niður, gráta meira eða verða oftar reið. Þessi hegðun er stundum misskilin sem frekja en getur líka verið kall á hjálp. Hjálp við að róa taugakerfið, kall á athygli, umhyggju, tíma, eftirfylgni og tengingu. Hegðunin getur verið birtingarmynd, "mamma/pabbi sjáðu mig, ég er hérna og mér líður ekki vel en ég veit ekki afhverju."


Samvera, nærvera og athygli hafa gríðarlega mikil áhrif á lífshamingju barna, munum eftir því í jólaösinni að samvera er besta gjöfin. Ótrufluð, alvöru samvera. Það getur verið gott að spyrja barnið opinna spurninga sem leiða til samræðna, sýna því áhuga og gefa sér tíma, alltaf smá á dag til þess að rækta sambandið ykkar.


Samvera þarf ekki að fela í sér mikið umstang og skemmtun, hún þarf ekki að kosta peninga eða krefjast þess að allir taki sér frí í heilan dag. Samvera getur í sinni einföldustu mynd falist í því að taka þátt í leik barnsins, lesa bækur, föndra, fara í feluleik, fara út í gönguferð eða í sund. Það sem skiptir máli að foreldrið sé meðvitað um að vera til staðar fyrir barnið, opið fyrir samskiptum og láti barnið finna hvað það skiptir miklu máli.


Góð samskipti og vellíðan haldast nefnilega í hendur.


Höfundur greinarinnar er Elísabet Ýrr Steinarsdóttir fjölskyldufræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni. Hægt er að bóka viðtöl hjá henni í gegnum Noona eða Hafa samband.


Comentarios


bottom of page