Það er í besta falli flókið að vera manneskja.
Á okkur herjar endalaust magn af upplýsingum um hörmungar af öllu tagi og heilinn sem er jú hannaður til að vernda okkur gegn öllu illu, virkjar stanslaust hin fjölmörgu kvíða og streituviðbrögð sem manneskjan hefur þróað með sér. Taugakerfið er þannig alltaf í viðbragðsstöðu, tilbúið til að berjast við og afstýra hættunum. Gallinn er auðvitað sá að í nútímaheimi er svo alltof margt sem við höfum ekki neina stjórn á en hefur þó neikvæð áhrif á tilveru okkar. Smitsjúkdómar, loftslagsvá, styrjaldir og voðaverk, græðgi og valdasýki ráðamanna, -þekktar og óþekktar ógnanir.
Við erum lítil og við erum oft hrædd, -eðlilega.
Í stóra samhenginu er það kannski óþarfi að kvarta um verðbólgu, hnignandi heilbrigðiskerfi, húsnæðisvanda og endalausa norðanáttina hér heima en þessir hlutir eru okkur þó nærtækir og hafa mikil áhrif á líf okkar.
Og hvað? Hvað gera litlar og hræddar manneskjur við allan kvíðann, óttann og depurðina?
Ég vildi óska að ég hefði góða allsherjarlausn sem hentar fyrir alla en auðvitað hef ég það ekki. Ég veit það eitt að það eina sem ég hef stjórn á er ég sjálf. Ég ber ábyrgð á mér sjálfri þrátt fyrir allar erfiðar tilfinningar og hugsanir. Ég hef val á hverjum einasta degi um eigin hegðun og ég hef val um að láta ekki þessar erfiðu tilfinningar taka af mér stjórnina. Mér mun ekki takast það alltaf en ég get þó alltaf reynt aftur og aftur og æft mig í að vera sú manneskja sem ég vil vera.
Og hvað? Get ég þá bara losað mig við allar erfiðu tilfinningarnar? Er þetta svona „verum bara jákvæð“ hugmynd? Þurfum við alltaf að vera glöð?
Nei ég held að við höfum flest komist að því að barátta við eigin tilfinningar er bæði orkufrek og skilar okkur litlu. Við hvorki berjum úr okkur né brosum úr okkur, óttann við tilveruna.
Galdurinn, sem þó er alls enginn galdur heldur skynsemi, felst þá fremur í því að samþykkja tilfinningarnar okkar, gangast við þeim en hætta að berjast við þær. Skoða þær án þess að dæma þær. Taka þannig úr þeim ógnina og draga úr þeim tennurnar.
Sú orka sem við notum að öllu jöfnu í að berjast við eða forðast eigin tilfinningar og hugsanir getur þá kannski nýst okkur til þess að taka til í „atferlisgarðinum“ okkar. Hvað viljum við leggja rækt við og hvernig getum við sem best skipulagt garðinn okkar svo hann blómstri? Hvað er okkur raunverulega mikilvægt og hvernig viljum við hegða okkur?
Takist okkur að vera í líðandi stund og njóta þess sem er án þess að velta okkur upp úr mögulegum en ókomnum hörmungum þá eigum við meiri möguleika á að bæta góðum augnablikum í tilveruna fyrir okkur sjálf og þá sem eru í kringum okkur.
Við getum þá frekar tekið meðvitaða og yfirvegaða ákvörðun um skrefin okkar í lífinu. Viljum við fara í Kjarnaskóg í kuldanum, njóta þar skjóls og þess hvernig skógurinn ilmar best þegar svalt er úti? Eða viljum fara með Niceair til Tenerife og fá D-vítamín í blóðið og slökun í skrokkinn?
Það er enginn nema við sjálf sem getum metið hvað okkur hentar best. Við erum bílstjórar í eigin rútu þrátt fyrir að farþegarnir séu stundum til vandræða og vilji ráða aksturslaginu.
Þetta viðhorf til tilverunnar fellur undir hugmyndir ACT (Acceptance and Commitment Therapy) eða Sáttar og atferlismeðferðar eins og hugmyndafræðin hefur verið nefnd á íslensku. Meðferðin er oftast eignuð bandaríska sálfræðingnum Steven C. Hayes og hefur náð styrkri fótfestu og vísindalegum grunni innan sálfræði og annarra fræða sem hafa með andlega heilsu að gera. WHO, alþjóðlega heilbrigðisstofnunin, hefur tekið ACT upp á arma sína m.a. til að aðstoða fólk í stríðshrjáðum löndum og hugmyndafræðin hefur verið notuð bæði til að hjálpa fólki í andlegum vanda og þeim sem vilja einfaldlega bæta líf sitt og líðan. Fyrir utan upplýsingaflæðið sem á okkur dynur og sem ég minntist á hér í upphafi þurfum við öll einnig að glíma við raunverulega erfiðleika í eigin tilveru og okkar nánustu. Lífið er í eðli sínu erfitt.
Flestum þeim sem kynnast ACT er það kærkomið að fá tækifæri til að láta af baráttu við tilfinningar sínar og fara sáttarleiðina í staðinn. Í hörðum heimi er mikilvægt að sýna okkur sjálfum umburðarlyndi og mildi. Í sáttarhug gagnvart okkur sjálfum, gefst okkur tækifæri til að skoða hver við viljum raunverulega vera, og til að taka fulla ábyrgð á því sem við gerum og segjum.
Njótum sumarsins í öllum þess útgáfum,og verum sátt við okkur sjálf.
Inga Dagný Eydal er hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni á Akureyri.
Hægt er að bóka tíma hjá Ingu Dagný í gegnum Noona eða Hafa samband.
Comments