Við sprengdum gamla árið í loft upp á dögunum og tókum á móti því nýja með snakki og dýfu. Allt
tekið alla leið eins og við kunnum öðrum þjóðum betur. Ég var stödd í Kaliforníu þegar Skaupið byrjaði um miðjan dag og þar sem við hjónin flýttum okkur heim úr búðinni til að missa ekki af neinu, fannst mér skondið hversu rólegir allir voru. Var að spá í að skrúfa niður bílrúðuna og hrópa; Skaupið er byrjað!! Svo vorum við fram eftir degi og kvöldi að reyna að finna út úr því hvenær þessi gullna stund rynni upp, -með flugeldunum heim á Akureyri, með kristalskúlunni í New York eða lágstemmdum Kaliforníuáramótum, en vorum reyndar löngu sofnuð þá. Eitt var þó alveg eins og venjulega og líklega gildir það um flesta við öll áramót. Við rennum í huganum yfir gamla árið og það bregst yfirleitt ekki að við finnum ýmislegt sem við myndum vilja gera betur á því næsta.
Ég hef persónulega aldrei lent í því að kveðja liðið ár með þeirri hugsun að ég hafi staðið mig
frábærlega og geti bara ekkert gert betur á því nýja. Stundum hafa athafnir mínar ekki alveg verið í
takti við lífsgildin mín, áttavitann sem mig langar að fylgja, leiðarstjörnuna mína. Stundum hefur lífið
verið fyrir, -annríkið, veðrið, bilaða þvottavélin, kvefið og allt þetta sem við getum ekki stjórnað, og
stundum erum ég einfaldlega vanmáttug og geri ýmislegt sem ég veit innst inni að er ekki það sem
mig langar að gera. Af því að það er bara oft einfaldara að flýja óþægindin en að horfast í augu við þau. Og ég er eins og allir aðrir, oft lítil í mér og kvíðin og get stundum ekki gert betur. Og við lofum okkur sjálfum að gera betur, standa okkur betur, vera duglegri, borða minna, hreyfa
okkur meira, spara, hitta vinina, baka súrdeigsbrauð, sóa ekki mat, verða ekki reið, sofa betur,
minnka snjalltækjanotkun, hætta öllu því sem er óhollt. Ekkert minna og enginn afsláttur gefinn.
Og svolitla stund trúum við því að við getum þetta allt saman. Og við trúum því jafnvel að ef við bara stöndum okkur betur, þá munum við hætta að vera kvíðin, hætta að vera sorgmædd.
Og þegar við uppgötvum að þetta ár er ekkert öðruvísi en síðasta ár, þegar við uppgötvum að við
getum ekki allt sem við ætluðum okkur, þegar við uppgötvum að draumarnir rætast ekkert endilega
allir í einu árið 2023 hvað gerum við þá? Jú við berjum á okkur sjálfum, við reynum að skamma úr
okkur dugleysið. Ef við bara værum jákvæðari, duglegri, kraftmeiri,- ekki svona rosalega miklir
aumingjar þá væri þetta að takast.
Kannast einhver við þetta?
Við leyfum okkur að koma fram við okkur sjálf eins og við myndum ekki koma fram við okkar versta
óvin. Við spörkum í okkur liggjandi, -við berjum á okkur þegar okkur líður sem verst. Slíkt hefur aldrei
og mun aldrei verða sérstaklega hjálplegt. Vissulega er stundum frábært og oft nauðsynlegt að gera jákvæðar breytingar á lífinu okkar, setja okkur raunhæf markmið og finna styrk innra með okkur til að ná þeim markmiðum. Það er þó fátt sem eflir styrkinn okkar eins og sjálfsmildi. Sjálfsmildi þar sem við markvisst temjum okkur elsku, skilning og mildi í eigin garð. Þar sem við endurskoðum það hvernig við tölum til okkar sjálfra, þar sem fyrirgefum okkur mistök og vanmátt, þar sem við erum okkar bestu vinir. Þar sem við lögum markmiðin að getu okkar fremur en að laga okkur að markmiðunum.
Kirsten Neff er bandarískur sálfræðingur og fræðimaður og hún beinir rannsóknum sínum og
fræðimennsku fyrst og fremst að því sem kallað er sjálfsmildi-„self compassion“. Hún skiptir
hugtakinu upp í þrjá meginþætti:
Sá fyrsti er þetta viðhorf sem ég hef þegar minnst á, að koma fram við okkur sjálf af kærleika og
skilningi.
Annar meginþáttur er samkennd með öðrum, að muna að við erum aldrei ein í vanmætti okkar og
sársauka, það er alltaf einhver sem er að ganga í gegnum það sama og við. Ekki til að gera lítið úr þjáningum okkar heldur til að draga úr einmanaleika og einangrun.
Í þriðja lagi bendir Kirsten Neff á núvitundarþjálfun til að skoða og fóta okkur í eigin tilfinningum.
Núvitundin hjálpar okkur til að vera fordómalaus gagnvart okkur sjálfum án þess að festast eða
flækjast um of í eigin líðan. Ég veit að þetta síðasta hljómar kannski flókið en þýðir einfaldlega að við tileinkum okkur svolítið meira æðruleysi í eigin garð. Það gildir nefnilega líka með okkur sjálf, við skoðum okkur sjálf, við gerum góðar breytingar þar sem við getum það en berjum ekki á okkur fyrir það sem við getum ekki breytt.
Í nútímasamfélagi er mikil áhersla lögð á að við tileinkum okkur sterkt sjálfsmat, að við trúum því að
við viljum eitthvað nógu mikið, þráum það nógu mikið,- þá getum við það. Það er vissulega gott að
trúa því að við getum allt mögulegt en það er raunar fullkomin sjálfsblekking að við getum allt sem
við viljum. Ég verð aldrei ballettdansmey og ég mun seint læra að prjóna,-svo vel sé. En ég get
ýmislegt annað og ég vil sýna því mildi að ég geti ekki allt. Ég er alveg elskuverð þótt ég kunni ekki að prjóna og geri ekki nema fjórðung af því sem ég vildi gjarna gera. Nýjar rannsóknir sýna að ungu fólki sem tileinkar sér sjálfsmildi farnast betur en þeim sem hafa mikið sjálfstraust. Það er ekki nóg að leggja af stað út í lífið með gott sjálfstraust ef við kunnum ekki að fyrirgefa okkur þegar illa gengur eða þegar okkur mistekst. Allar manneskjur upplifa stundum að duga ekki til eða að mistakast. Og í síbreytilegum, æ flóknari heimi, er bara engin leið til að vernda ungt fólk fyrir atburðum sem ógna sjálfsmatinu þeirra, atburðum s.s. félagslegri útskúfun, fjölskylduvandamálum, einelti, persónulegum mistökum o.s.frv. Í öllum þeim aðstæðum er gott að eiga sjálfsmildi.
Ég óska ykkur öllum og sjálfri mér líka góðs nýbyrjaðs árs. Ég óska þess að við getum verið sveigjanleg í öllum stormunum sem munu herja á okkur, ég óska þess að við getum gert jákvæðar breytingar sem færa okkur nær því sem okkur langar að vera. Ég óska þess að okkur gangi vel í allskonar, -handbolta og Eurovision en líka að við sýnum þátttakendum skilning ef illa gengur. En mest óska ég þess að við ástundum sjálfsmildi, hvert og eitt,- því að í mýkt okkar og mildi liggur mesti styrkurinn.
Hér er svo örstutt æfing í sjálfsmildi:
Lokum augum
Hvíslum í eigið eyra setningunni „mér þykir vænt um þig“
Leyfum setningunni að hljóma innra með okkur um stund án nokkurrra fordóma eða væntinga.
Leggjum lófa að vanga og strjúkum okkur mjúklega um vangann.
Höfundur greinarinnar Inga Dagný Eydal er hjúkrunarfræðingur, ráðgjafi og núvitundarleiðbeinandi hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.
Hægt er að bóka viðtöl hjá henni í gegnum Noona eða Hafa samband.
Comentarios