Hvað er einelti? Það er erfitt að skilgreina það en flestir eru þó sammála því að ekkert einelti er án þolanda og geranda þar sem einstaklingur er endurtekið beittur ofbeldi (líkamlegu og/eða andlegu) af hendi annars einstaklings. Flestum, börnum og fullorðnum, líður illa yfir því að hafa valdið öðrum skaða á einhvern hátt. Það er vegna þess að við getum flest sett okkur í spor annarra og ímyndað okkur vanlíðan og sársauka náungans. Við erum líka félagsverur sem þýðir að okkur er mikilvægt að huga að hvort öðru og standa saman. Þetta er þó ekki algilt. Ekkert okkar er fullkomið, við getum öll við ákveðnar aðstæður verið vond og grimm við aðra og fundist það í lagi á því augnabliki. Þær aðstæður er hægt að setja í þrjá flokka: 1. Þegar við erum særð, veikburða eða líður illa, 2. Þegar okkur er ógnað og 3. Þegar geta okkar til samkenndar er skert. Ekkert réttlætir að sjálfsögðu ofbeldi gagnvart öðrum en með því að rýna í þessar aðstæður þá er mögulega hægt að finna útskýringar á því afhverju sumir gera slíkt og hvernig hægt sé að hjálpa þeim.
Þegar við erum særð eða líður illa
Í taugakerfi okkar er ákveðið varnarkerfi sem kann ákveðnar leiðir til verja okkur þegar hætta steðjar að og eitt af því er að berjast. Það er þá sem við getum farið að ráðast að öðrum. Þegar þetta varnarkerfi fer í gang þá fer nánast öll athygli okkar í það, og lítið sem ekkert fer fyrir samkennd eða skynsemi til dæmis. Varnarkerfið túlkar aðstæður þar sem við erum særð eða veikburða sem hættulegar. Þá verður til dæmis afar stutt reiði, pirring og árásarhneigð hvort sem það er með orðum eða hnefanum og langt í skynsemina og samkenndina. Þegar við erum veik fyrir, kvíðin, uppfull af streitu eða með líkamlegan sársauka verðum við móttækilegri fyrir mögulegum hættum í kringum okkur. Varnarkerfið okkar virkjast oftar. Rétt eins og þegar við nálgumst sært eða veikburða dýr, þá er líklegt að það bíti okkur og klóri. Oft getur þetta komið út í einelti í garð annara.
Þegar okkur er ógnað-útskúfun
Varnarkerfið virkjast einnig þegar við sjáum vísbendingar um að vera mögulega útskúfuð. Þróunarsálfræðingar telja ástæðuna vera þá að þegar við bjuggum í frumskóginum eða á sléttunum þá vorum við öruggust innan ákveðins hóps og það var út um okkur ef við vorum skilin ein eftir. Það er okkur gríðarlega mikilvægt að tilheyra og við erum sífellt að reyna að falla inn í hópinn. Þetta getur útskýrt hvers vegna sumir leiðast út í það að taka þátt í einelti eða leiða einelti hjá sér, þ.e til þess að halda sér innan hópsins. Eitt af því sem við virðumst einnig gera þegar við verðum hrædd um að vera útskúfað er að reyna að kasta öðrum fyrir úlfana, reyna að útskúfa einhvern annan í staðinn og bjarga þannig eigin skinni. Einnig getur varnarkerfið brugðist við með því að sýna undirgefni og að kalla eftir einhverskonar tengslum. Þess vegna getum við leiðst út í það að gera eitthvað sem er gegn okkar samvisku til þess að þóknast öðrum.
Skortur á samkennd
Loks eru það aðstæður þar sem samkennd fólks getur einfaldlega verið skert. Þar spila þættir í umhverfi fólks stærsta hlutverkið og sér í lagi tveir þegar það kemur að börnum; félagsmótun og traust geðtengsl. Félagsmótun er hugtak yfir það nám sem á sér stað í gegnum reynslu og á reglur samfélagsins. Það fyrsta sem börn gera þegar þau fæðast er að ná sambandi við þá sem annast þau og fylgjast náið með þeim. Þarna spila líka traust geðtengsl miklu máli, að það ríki traust og virðing milli umönnunaraðila og barna. Börn læra þannig sem fyrir þeim er haft en þurfa að geta prófað sig áfram upp á eigin spýtur og að geta komið aftur til umönnunaraðila ef eitthvað kemur upp á. Þau læri síðan af mistökunum og þori að prófa aftur. Í gegnum ferli þetta læra börn meðal annars samkennd. Ef barn býr við skort á samkennd í umhverfi sínu þá getur þeirra eigin samkennd „dofnað“. Bent hefur verið m.a á ofbeldisfullt afþreyingarefni í þessu samhengi. Einnig er afar mikilvægt að umönnunaraðilar barna sýni í orði og verki virðingu og samkennd í garð annara. Samkennd þarf að rækta og viðhalda, annars er aukin hætta á að börnin leiðist út í það meðal annars að leggja aðra í einelti eða leiða einelti hjá sér.
Hvað er hægt að gera?
Einelti og ástæður þess að við erum stundum vond við hvert annað eru að sjálfsögðu mun flóknari en þetta. En fyrrnefndar ástæður er vel er hægt að vinna með. Þar þurfa þeir fullorðnu sem standa barninu næst og verja mestum tíma með þeim að taka af skarið, jafnvel með stuðningi fagfólks eins og fjölskylduráðgjöfum, foreldraráðgjöfum og sálfræðingum. Þar þarf að spyrja sig:
Líður barninu illa?
Upplifir það sig utan hópsins?
Er ofbeldi eða tillitsleysi í umhverfi barnsins?
Ríkir traust og virðing milli barnsins og umönnunaraðila þess?
Eins mega foreldrar og starfsfólk skóla sem umgangast börnin mikið spyrja sig:
Líður mér sjálfri/sjálfum/sjálfu nógu vel?
Upplifi ég mig utanveltu?
Ríkir ofbeldi eða tillitsleysi í kringum mig?
Er ég að rækta traust og virðingu í samskiptum mínum við aðra, sér í lagi við börnin í kringum mig?
Rétt er að taka fram að með þessu er ekki verið að leita að sökudólgum. Það er í raun öllum hollt að spyrja sig þessarra spurninga reglulega. Því ef okkur líður vel, upplifum okkur ekki utanveltu heldur sem jafningja, ræktum traust og virðingu í garð annara og reynum að halda ofbeldi og tillitsleysi í lágmarki þá er líklegra að við séum góð við hvort annað.
Höfundur greinarinnar Elín Karlsdóttir, leikskólakennari og sálfræðingur, starfar hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni. Hægt er að bóka viðtöl hjá henni í gegnum Noona eða Hafa samband.
Comments