Geðheilsa og andleg líðan eru hugtök yfir hugarástand og tilfinningalega upplifun
sem hafa áhrif á getu fólks til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Að geta farið inn í
daginn, mætt þeim verkefnum sem bíða, átt samskipti og tengsl við fólkið sitt og
upplifað jafnvægi. Búið við frelsi frá nagandi kvíða, kæfandi depurð eða eldfimri reiði.
Þarf ég stuðning eða meðferð?
Í dag er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Fólki er almennt umhugað um eigin heilsu
og þegar viðvörunarmerki um líkamlegan heilsufarsvanda fara að blikka, bókum við
tíma hjá lækninum. Mikilvægt er að það sama eigi við um sálartetrið og andlega
líðan.
Hægt er að fá mat á geðheilsu og andlegri líðan, sækja viðtalsmeðferð, sálrænan
stuðning eða ráðgjöf hjá fagfólki í heilbrigðiskerfinu. Þetta er hægt bæði hjá
heilsugæslum og hjá sérfræðingum á stofum úti í bæ. Það er mikilvægt að hunsa
ekki vísbendingar um vanda og taka þá ábyrgð á eigin heilsu að leita til fagaðila. En
hvenær á fólk að leita sér hjálpar?
Í fyrsta lagi er mikilvægt að staldra við og spyrja sig, hvernig líður mér? Oftast er
betra að fara af stað áður en vandi hefur stigmagnast en að bíða þar til einkenni eru
orðin alvarleg og hamlandi í daglegu lífi. Allir eru velkomnir til fagaðila á stofum til að
fá mat á vanda eða til að ræða við fagaðila í trúnaði um hvað sem getur verið að
trufla.
Ef þú finnur fyrir tilfinningavanda sem hefur truflað þitt daglega líf endurtekið gæti
verið þörf á að ræða við fagaðila og fá mat á einkennum og því hvað hægt er að
gera.
Dæmi um viðvörunarmerki um tilfinningavanda eða skerta geðheilsu gætu verið
eftirfarandi:
Kvíðatilfinning
Að upplifa dagleg verkefni yfirþyrmandi og að finna til vanmáttar
Að ofhugsa hluti og eiga erfitt með að “slökkva” á hugsunum
Líða illa og vera dapur eða niðurdregin og grátgjarnari en þér er eiginlegt
Að reiðast og pirrast auðveldlega
Að eiga í erfiðleikum með að ráða við daginn vegna tilfinningalegra erfiðleika
Sofa meira eða minna en venjulega
Að borða meira eða minna en venjulega
Að forðast fólk og samveru
Minnkaður áhugi á því að gera ánægjulega hluti og sinna áhugamálum
Að eiga í erfiðleikum með að halda út daginn í vinnunni eða skólanum
Tilfinning um vonleysi og að engin leið sé út úr vandanum
Óhófleg notkun áfengis eða annarra hugbreytandi efna
Hugsanir um sjálfsskaða eða að líða eins og þú viljir ekki lifa lengur
Hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni er hægt að fá tíma í ráðgjöf og viðtalsmeðferð hjá
yfir 20 fagaðilum. Velkomið er að bóka í gegnum Noona appið eða heimasíðuna
www.heilsaogsal.is eða í síma 8303930.
コメント